29.04.2025
Uppgjör Skaga hf. á 1. ársfjórðungi 2025
Haraldur I. Þórðarson, forstjóri Skaga, segir að á fyrsta fjórðungi ársins hafi áfram verið jákvæð þróun í grunnrekstri Skaga og frekari skref hafi verið tekin í samþættingu á milli rekstrareininga í samstæðunni.

„Verðlækkanir skráðra hlutabréfa drógu niður afkomu fjárfestinga og krefjandi markaðsaðstæður höfðu því töluverð áhrif á rekstrarafkomu samstæðunnar á tímabilinu,“ segir hann.
Vöxtur iðgjalda áfram sterkur
Haraldur segir tryggingarekstur VÍS í góðum farvegi og að iðgjaldavöxtur sé áfram sterkur. „Kostnaðarhlutfall lækkar enn og afkoma af tryggingarekstri batnar nokkuð á milli ára þrátt fyrir að árstíðarbundinn tjónaþungi hafi í för með sér neikvæða afkomu af vátryggingasamningum.“
Afkomu fjárfestingasafns VÍS segir hann hafa litast talsvert af erfiðum aðstæðum og miklum sveiflum á eignamörkuðum, sér í lagi vegna verðlækkana á skráðum hlutabréfum á tímabilinu. „Virk stýring safnsins skilaði þó árangri umfram viðmið en safnið lækkaði um 1,1% til samanburðar við 1,6% lækkun viðmiðunarvísitölu. Á fjórðungnum var dregið nokkuð úr vægi skráðra hlutabréfa og aukið á vægi skuldabréfa.“
Sameiningu undir nafni Íslenskra verðbréfa lokið
Þá segir Haraldur starfsemi Fossa fjárfestingarbanka halda áfram að vaxa og reglulegar tekjur af bankastarfsemi, svo sem vaxtamunur og samningsbundnar þóknanatekjur, og aðrir vaxandi tekjustraumar hafi leikið stórt hlutverk á fyrsta ársfjórðungi.
Sameining SIV eignastýringar og ÍV sjóða undir nafni Íslenskra verðbréfa kláraðist formlega undir lok fyrsta ársfjórðungs. Sameinað félag Íslenskra verðbréfa telur nú 15 starfsmenn í Reykjavík og á Akureyri sem stýra eignasöfnum og sjóðum fyrir stofnanafjárfesta, fagfjárfesta og einstaklinga. Fjölbreytt sjóðaframboð félagsins, sem telur 25 sjóði og þar af 16 sjóði fyrir almenna fjárfesta, er nú aðgengilegt viðskiptavinum innan samstæðunnar sem og nýjum viðskiptavinum í gegnum heimasíðu félagsins.
„Nú þegar sameiningu félaganna er lokið má búast við að samlegðaráhrif komi fram strax á öðrum ársfjórðungi,“ segir Haraldur.
Óvissu í alþjóðamálum gætir enn
Afkoma af fjármálastarfsemi samstæðu Skaga fyrir skatta var neikvæð um 34 milljónir á tímabilinu og litast að hluta af kostnaði í tengslum við sameiningu Fossa og Íslenskra verðbréfa annars vegar og SIV og ÍV sjóða hins vegar.
Haraldur segir áhrifa aukinnar óvissu í alþjóðamálum enn gæta á fjármálamörkuðum en neikvæð afkoma á fyrsta ársfjórðungi, skýrist að mestu af neikvæðri afkomu af fjárfestingum og árstíðarbundnum tjónaþunga í tryggingastarfsemi.
„Á fjórðungnum er afkoma af vátryggingastarfsemi umfram áætlun og vöxtur í fjármálastarfsemi er í takti við markmið. Rekstrarhorfur fyrir árið eru því óbreyttar,“ segir hann.
Helstu tölur úr uppgjöri fyrsta ársfjórðungs:
- Tap eftir skatta nam 1.353 mkr. (1F 2024:+136 mkr.).
- Neikvæðar fjárfestingatekjur og fjármagnsliðir draga afkomu samanlagt niður um 1.019 mkr. Þar af voru fjárfestingatekjur neikvæðar um 497 mkr., sem kemur til að mestu vegna lækkunar skráðra hlutabréfa um 1.063 m.kr.
- Áframhaldandi góður taktur í tryggingastarfsemi með 10,9% tekjuvöxt á milli ára. Samsett hlutfall 100,7% (1F 2024: 103,6%) og batnar um 2,9 prósentustig á milli ára.
- Afkoma af vátryggingasamningum nam –51 mkr. og batnar um 192 mkr. milli ára.
- Hreinar tekjur í fjármálastarfsemi nema 780 m.kr. á tímabilinu (1F 2024: 626 m.kr.) og vaxa um 25% á milli ára.
- Afkoma fjármálastarfsemi fyrir skatta er neikvæð um 34 mkr., en kostnaður að fjárhæð um 60 mkr. fellur til í fjórðungnum vegna fækkunar stöðugilda og kostnaðar vegna sameiningar Íslenskra verðbréfa við fjármálastarfsemi samstæðunnar.
- Eignir í stýringu nema 225 ma.kr. og minnka um 2 ma.kr. milli fjórðunga vegna lækkana á eignamörkuðum.
- Tap á hlut nam 0,71 kr. á fjórðungnum (1F 2024: +0,07).
- Eigið fé samstæðu nemur 20,9 ma.kr.
- Gjaldþol samstæðu er 1,19 í lok tímabilsins, eftir arðgreiðslu og lækkanir í hlutabréfasafni á sama tíma og kröfur um eiginfjárbindingu hækkuðu vegna mikillar hækkunar evrópskra hlutabréfavísitalna á sama tímabili.
Sjá einnig kauphallartilkynningu Skaga og upptöku af kynningarfundi fyrir fjárfesta.