05.02.2025

Kauphallarbjöllu hringt í tilefni nafnaskráningar

Skagi hf. hefur nú verið formlega skráð sem nafn móðurfélags VÍS trygginga hf., Fossa fjárfestingarbanka hf. og Íslenskra verðbréfa hf. Af því tilefni fór fram svokölluð „bjölluathöfn“ í Kauphöllinni (Nasdaq Iceland) í morgun.

mynd
Haraldur Þórðarson, forstjóri Skaga, hringir kauphallarbjöllunni.

Haraldur Þórðarson, forstjóri Skaga, hringdi Kauphallarbjöllunni og áfanganum var fagnað.

Undanfarin misseri hefur móðurfélag samstæðunnar verið starfrækt undir nafni Vátryggingafélags Íslands hf. en hefur nú fengið nafnið Skagi í kjölfar þess að tryggingarekstur var í upphafi árs færður í dótturfélag. Var þetta lokahnykkur þeirrar vegferðar að koma samstæðu Skaga í sitt framtíðarhorf.

Haraldur Þórðarson, forstjóri Skaga:

„Við höfum unnið markvisst að samþættingu starfsemi okkar með það að markmiði að skapa aukið virði fyrir viðskiptavini, hluthafa og samfélagið í heild. Skráning nafnsins er mikilvægur áfangi í þeirri vegferð. Nafnið Skagi endurspeglar þá sameinuðu krafta sem við höfum byggt upp innan samstæðunnar og styrkir stöðu okkar á fjármála- og tryggingamarkaði.“

Við sameiningu VÍS og Fossa fjárfestingarbanka árið 2023 hófst umbreytingarferli félaganna í öfluga fjármálasamstæðu. Framtíðarfyrirkomulag samstæðunnar, sem var kynnt þá, gerði ráð fyrir móðurfélagi og þremur öflugum dótturfélögum; VÍS tryggingum hf., Fossum fjárfestingarbanka hf. og SIV eignastýringu. Á síðasta ári gekk Skagi frá kaupum á Íslenskum verðbréfum og sameinast nú starfsemi eignastýringar undir nafni Íslenskra verðbréfa.

Sjá einnig kauphallartilkynningu Skaga.

Magnús Harðarson, forstjóri Nasdaq Iceland og Haraldur Þórðarson, forstjóri Skaga.

Auglýsing Nasdaq um skráningu nafnsins Skagi á Times Square í New York í Bandaríkjunum.