01.08.2025
Haraldur Þórðarson tekinn tali í Viðskiptablaðinu
Í viðtali í Viðskiptablaðinu 23. júlí sl. segir Haraldur Þórðarson, forstjóri Skaga, að félagið sé opið fyrir vaxtartækifærum sem kunni að verða til í ljósi mögulegra breytinga í samkeppnisumhverfi fjármálafyrirtækja á Íslandi.

Viðskiptablaðið hefur umfjöllun sína á síðasta árshlutauppgjöri Skaga, þar sem fram kom að samstæðan hafi hagnast um 972 milljónir króna á fjórðungnum og að á ársgrundvelli hafi arðsemi eigin fjár verið 18,4 prósent.
Bent er á að góður gangur hafi verið í grunnrekstri samstæðunnar og munað þar mestu um afkomu af tryggingarstarfsemi.
VÍS leiðandi í vexti
Fjórðungurinn var sá besti í tryggingarstarfsemi frá skráningu VÍS á hlutabréfamarkað árið 2013. Haraldur Þórðarson, forstjóri Skaga, segir þar um að ræða uppskeru fjölda aðgerða sem gripið hafi verið til undanfarin misseri, en VÍS hafi verið í mikilli sókn.
Segja megi að VÍS sé það tryggingarfélag sem sé leiðandi í vexti á markaðnum í dag og að sama skapi á kostnaðarhliðinni. Þetta sé veruleg umbreyting frá því á árum áður og starfsfólk VÍS eigi mikið hrós skilið.
Haraldur bendir líka á að félagið sé í miðju umbreytingarverkefni, en samruni VÍS og Fossa gekk í gegn haustið 2023 og um síðustu áramót varð Skagi formlega móðurfélag samstæðu VÍS trygginga, Fossa fjárfestingabanka og Íslenskra verðbréfa. Nú þegar að samstæðan sé komin í sitt framtíðarhorf fái áframhaldandi vöxtur og aukin arðsemi óskipta athygli hans.
„Við vorum í raun að reka fjögur fjármálafyrirtæki út fyrsta ársfjórðung á þessu ári þannig við eigum eftir að sjá hagræði af þeim viðskiptum koma fram þegar líður á árið. En það má segja að við séum ennþá úti í miðri á, við erum að horfa til okkar langtímamarkmiða sem við höfum sett til ársins 2026 og við erum að taka rétt skref jafnt og þétt í átt að þeim markmiðum,“ segir Haraldur við Viðskiptablaðið.
Gerjun býr til tækifæri
Hann segir félagið hafa verið virkan þátttakanda í þróun á fjármálamarkaðnum hérna heima.
„Við erum annars vegar búin að vaxa töluvert með innri vexti og það hefur gengið vel. Við erum orðin leiðandi á tryggingarmarkaði hvað varðar vöxt og svo höfum við náð fram góðum innri vexti í fjármálastarfsemi. Til viðbótar við það þá fórum við í kaup á Íslenskum verðbréfum og það var mikilvægt skref fyrir okkur til að ná stærðarhagkvæmni í fjármálastarfseminni.“
Haraldur segir jafnframt að sú gerjun sem átt hafi sér stað í samkeppnisumhverfi fjármálafyrirtækja gæti haft í för með sér margvísleg tækifæri fyrir Skaga, ekki bara hvað varði ytri vöxt heldur gætu til dæmis, í ljósi samrunaviðræðna Kviku banka og Arion banka, mögulegar breytingar meðal samkeppnisaðila skapað eyðu sem Skagi gæti fyllt.
Skagi hefur verið nefndur sem mögulegur kaupandi ef Kvika myndi selja frá sér eignastýringarstarfsemi sína til að liðka fyrir samþykki Samkeppniseftirlitsins í viðræðunum við Arion banka.
„Við ætlum að halda áfram að láta að okkur kveða á markaðnum með áframhaldandi innri vexti. En ef við sjáum ytri vaxtartækifæri sem að við teljum að þjóni hagsmunum félagsins eða hluthöfum þá munum við auðvitað skoða það vandlega,“ segir Haraldur í viðtalinu.
Ytri vaxtartækifæri á sviði eignastýringar myndu sannarlega falla að stefnu Skaga en félagið sé með skýra vaxtarstefnu.
Vilja vera í stöðu til að grípa tækifærin
„Það á auðvitað við um öll okkar fyrirtæki, við viljum vaxa í tryggingarrekstri, í fjárfestingum í okkar starfsemi og eignastýringu. Svo er það nú þannig að fjármálastarfsemin í dag er enn þá hlutfallslega lítill partur af starfsemi samstæðunnar. Við höfum lagt mikla áherslu á vöxt þar til þess t.a.m. að auka stærðarhagkvæmni, þannig ef við sjáum tækifæri sem falla vel að okkar starfsemi munum við auðvitað skoða það,“ segir hann.
Haraldur segir áhugaverða tíma fram undan og tækifæri í fjármálakerfinu til þess að ná fram aukinni stærðarhagkvæmni, sér í lagi hjá félögum á borð við Skaga sem séu í vaxtarfasa.
„Það virðist vera þannig að boltinn er kominn af stað og ólíklegasta niðurstaðan er að ástandið verði óbreytt.“
Verkefnið fram undan snúist um að Skagi sé sem best undirbúinn undir þær breytingar sem virðist fram undan og sé ávallt í stakk búinn til að nýta tækifærin þegar þau gefast. Þau geti hvort heldur sem er í formi tækifæra til innri eða ytri vaxtar.
Styttri frétt upp úr viðtali Viðskiptablaðsins við Harald Þórðarson, forstjóra Skaga, er að finna HÉR, en áskrifendur geta lesið allt viðtalið HÉR.