30.07.2025

Góður árangur byggir á breytingum síðustu ára

Guðný Helga Herbertsdóttir, forstjóri VÍS, dótturfélags Skaga, var tekin tali í ViðskiptaMogganum 23. júlí síðastliðinn. Tilefnið er góð afkoma í tryggingastarfsemi Skaga á fyrri helmingi þessa árs, sú besta í rúman áratug, en það mátti lesa úr síðasta árshlutauppgjöri Skaga.

mynd

„Það er virkilega ánægjulegt að sjá afrakstur mikillar vinnu og ákveðinnar stefnubreytingar vera að skila sér,“ segir Guðný Helga við blaðamann ViðskiptaMoggans og rekur viðsnúning á rekstri VÍS á síðustu árum til breytinga sem gerðar hafi verið á rekstri tryggingafélagsins.

Í viðtalinu ræðir hún meðal annars rekstur VÍS, fyrirhugaðar sameiningar á fjármálamarkaði, regluverk, samstarf VÍS og Íslandsbanka og samkeppnisumhverfið á tryggingamarkaði.

Viðsnúningur í rekstri VÍS

Guðný Helga fer yfir hvernig vöxtur hjá VÍS hefur haldist kröftugur, en tekjur af vátryggingasamningum jukust um tæplega níu prósent á öðrum ársfjórðungi og tæplega tíu prósent á fyrri helmingi ársins.

Þá er vitnað í uppgjör Skaga um að samsett hlutfall hafi verið 80,9 prósent á öðrum ársfjórðungi og 90,6 prósent á fyrstu sex mánuðum ársins.

Samsett hlutfall sýnir hlutfall kostnaðar af iðgjöldum og sé það undir hundrað prósentum þá standa iðgjöld undir gjöldum tímabilsins sem undir er.

Í uppgjöri Skaga er rekstrarbatinn sagður skýrast af áframhaldandi tekjuvexti í tryggingastarfsemi, hagfelldri tjónaþróun og hagræðingu í rekstri. Í viðtalinu segir Guðný Helga breytingu sem innleidd var haustið 2022 hafa vegið þungt.

„Við tókum söluna til okkar og sögðum upp verktökunum. Það þurfti skýra sýn og kjark til þess en það reyndist heillaspor,“ segir hún. Í stað þess að treysta á utanaðkomandi söluafl hafi markið verið sett á að byggja upp sterka sóknarmenningu innanhúss. Það hafi gengið hratt og vel og í því hafi falist mikil umbreyting í menningu og afstöðu.

Sömuleiðis hafi áhersla verið lögð á að viðskiptavinir fengju rétta og viðeigandi vernd. „Þetta snýst ekki bara um að selja sem mest, heldur að þjónusta rétt,“ segir hún.

Þá kemur fram að árangurinn hafi einnig mælst í lykiltölum félagsins. Kostnaðarhlutfall hafi lækkað, samsett hlutfall haldist innan marka og nýr taktur í rekstrinum skilað sér.

„Á fyrri hluta þessa árs er rúmlega tveggja milljarða króna viðsnúningur á tryggingarekstrinum síðan við hófum þessa vegferð árið 2023, það er veruleg bæting,“ segir Guðný Helga í viðtalinu, en bendir um leið á að tryggingastarfsemi sé alltaf háð sveiflum, einkum þegar komi að tjónaþróun.

„En við höfum haft hagfelld misseri þar sem lítið hefur verið um stærri tjón og við höfum nýtt tímann vel til að byggja upp öflugan grunn.“

Mörg handtök við stofnun Skaga

Guðný Helga fer yfir þær breytingar sem orðið hafa á rekstri VÍS og stefnu síðustu og aðdragandanum að stofnun samstæðu Skaga.

„Það voru náttúrlega mörg handtök sem fólust í því að stofna Skaga á sínum tíma,“ segir hún, en um hafi verið að ræða grundvallarbreytingu fyrir VÍS, sem var skráð félag, að verða dótturfélag í nýrri samstæðu.

Áður en sú vegferð hafi hafist hefði stjórnin líka lagt niður nýjar áherslur fyrir VÍS.

„Það var vilji hjá stjórninni til að gera VÍS að sóknardrifnu fyrirtæki og stjórnin stóð mjög vel með okkur í þeim breytingum sem við lögðum upp með innan VÍS.“

Síðan hafi Íslensk verðbréf bæst við samstæðu Skaga, en þrátt fyrir miklar breytingar hafi fyrirtækinu gengið vel í gegnum þessar umbreytingar. Núna uppskeri VÍS ávinninginn af því, að sögn Guðnýjar Helgu.

Þegar hún er spurð hver hafi verið stærsta áskorunin síðan hún tók við sem forstjóri VÍS segir hún það hafa verið breytingarnar á taktinum í VÍS. Breytingarnar hafi verið umfangsmiklar en í heildina gengið betur en hún hafði jafnvel þorað að vona.

„Ég er ótrúlega stolt af samstarfsfólki mínu hjá VÍS sem hefur sýnt trú sína á þessari vegferð í verki. Við þurftum öll kjark og þor til að breyta um leið og auðvitað þurftum við að hafa trú á að okkur tækist það. Við höfum fagnað öllum áföngum á þessari leið en við erum auðvitað hvergi nærri hætt,“ segir hún.

Umræða sem á fullt erindi

Guðný Helga segist í viðtalinu við ViðskiptaMoggann telja að umræðan um sameiningar og samþættingu þjónustu eigi fullt erindi, sérstaklega í litlu samfélagi eins og því íslenska þar sem stærðarhagkvæmnin sé ekki sú sama og víða erlendis.

Þróunina segir hún mega sjá bæði innanlands og utan og að eðlilegt og nauðsynlegt sé að trygginga- og fjármálafyrirtæki skoði hvernig megi sameinast í þjónustu og jafnvel rekstri. Markmiðið hljóti að vera að lækka kostnað, neytendum til hagsbóta.

Um leið áréttar Guðný Helga í viðtalinu að allar slíkar hugmyndir verði að ramma inn í skýrt og raunhæft regluverk sem mæti aðstæðum hér á landi.

„En það má taka meira tillit til þess að við erum lítið samfélag. Reglugerðir sem koma frá Evrópu gera oft ráð fyrir miklu stærri starfsemi en við höfum hér og eru því oft þungar fyrir þá starfsemi,“ segir hún.

Samstarf VÍS og Íslandsbanka

Guðný Helga bendir á að miklar breytingar hafi orðið á bankamarkaði og segir samkeppnisumhverfi tryggingafélaga líka hafa breyst mikið. Samstarf VÍS og Íslandsbanka sem kynnt var í byrjun árs sé bein viðbrögð við þeirri þróun og sem leið til að auka virði fyrir viðskiptavini.

Fljótt hafi komið í ljós að vel gengi að samþætta þjónustu þessara tveggja stóru leikenda á fjármálamarkaði og innan örfárra mánaða var samstarfið komið í loftið og tilbúið fyrir viðskiptavini.

„Við tilkynntum samstarfið seinni hluta janúar og vorum komin í loftið í byrjun maí. Starfsfólk beggja félaga lagðist á eitt um að láta hlutina ganga upp og var strax eftirtektarvert hversu vel þeim gekk að vinna saman.“

Guðný Helga er spurð hvort komið hafi til álita að samstarf VÍS og Íslandsbanka gengi lengra, svo sem með sameiningu Skaga og Íslandsbanka, áréttar hún að ekkert sé ákveðið í þeim efnum, þó vitanlega hafi að undanförnu verið mikið rætt hvernig mætti auka skilvirkni á íslenskum fjármálamarkaði.

Áskrifendur Morgunblaðsins geta nálgast allan texta viðtals ViðskiptaMoggans við Guðnýju Helgu Herbertsdóttur, forstjóra VÍS, HÉR.